Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 250/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. apríl 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 250/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120011

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 4. desember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. nóvember 2023, um að synja umsókn hans um dvalarskírteini fyrir aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sbr. 90. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn hans. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og mál hans tekið til nýrrar meðferðar vegna alvarlegra málsmeðferðarannmarka.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi á Íslandi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. febrúar 2019, var kæranda gert að sæta brottvísun og endurkomubanni til tveggja ára. Hinn 15. febrúar 2019 sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. febrúar 2019, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Þar að auki var honum gert að sæta brottvísun á grundvelli 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, ásamt endurkomubanni til tveggja ára, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 183/2019, dags. 14. apríl 2019, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Af gögnum málsins má ráða kærandi hafi verið fluttur úr landi 27. febrúar 2019 og var endurkomubann hans því í gildi til 27. febrúar 2021, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Í málaskrá Útlendingastofnunar kemur einnig fram að kærandi hafi reynt að brjóta gegn umræddu endurkomubanni 10. nóvember 2020, en verið stöðvaður á Keflavíkurflugvelli.

Samkvæmt hjúskaparvottorði, dags. 19. janúar 2022, gekk kærandi í hjúskap þann sama dag með ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis. Maki kæranda skráði dvöl sína hér á landi hjá Þjóðskrá Íslands 2. febrúar 2022. Á grundvelli dvalarréttar hennar lagði kærandi fram umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara 8. mars 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. nóvember 2023, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að hjúskapur kæranda og maka hans væri til málamynda og í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis. Bryti hjúskapur þeirra gegn 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga og væri Útlendingastofnun því heimilt að synja kæranda um útgáfu dvalarskírteinis. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 20. nóvember 2023. Hinn 4. desember 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð og frekari fylgigögn vegna málsins voru lögð fram með rafrænni gagnasendingu, dags. 18. desember 2023, svo og með tölvubréfum, dags. 6. febrúar og 14. mars 2024.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í hinni kærðu ákvörðun komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að rétt væri að synja kæranda um útgáfu dvalarskírteinis. Að öðru leyti mælir hin kærða ákvörðun ekki fyrir um slík réttaráhrif að kærunefnd væri rétt og skylt að fjalla um það í sérstökum úrskurði. Telur nefndin því nægja að fjallað sé um réttarstöðu og hagsmuni kæranda í úrskurði þessum.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til hjúskapar kæranda við maka hans. Fram kemur að þau hafi kynnst í Albaníu um sumarið 2020, og að maki kæranda hafi stuttu síðar flutt inn til hans. Þau hafi gengið í hjúskap hjá albönskum sýslumanni 19. janúar 2022 og flutt til Íslands fimm dögum síðar. Kærandi geri margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. varðandi skýrslutökur kæranda og maka hans hjá lögreglu, og brot gegn málshraðareglu stjórnsýsluréttarins, sbr. m.a. 3. mgr. 90. gr. laga um útlendinga og 9. gr. stjórnsýslulaga.

Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar kærandi til fyrirliggjandi hjúskaparvottorðs og réttar til fjölskyldusameiningar á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga. Vísað er til viðeigandi lagaákvæða, einkum 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þá telji kærandi upptalningu á atriðum sem koma til skoðunar ekki vera tæmandi og að almennar sönnunarreglur gildi en byggja verði mat á málefnalegum sjónarmiðum. Kærandi hafnar því mati Útlendingastofnunar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarskírteinis hér á landi. Útlendingastofnun hafi tínt til ýmis ótengd atriði til þess að tortryggja samband kæranda við maka hans. Þá telji kærandi Útlendingastofnun veita því sjónarmiði að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd árið 2019 of mikið vægi. Það geti ekki leitt sjálfkrafa til þess að hjónaband kæranda og maka hans sé til málamynda.

Það sé mat kæranda að sjónarmið honum í óhag fái of mikið vægi við ákvarðanatöku Útlendingastofnunar, svo sem varðandi flugmiða maka kæranda frá árinu 2020, gögn sem renni stoðum undir sambúð þeirra í Albaníu, samskipti þeirra, og ljósmyndir af þeim hjónum. Þá fái kærandi ekki séð hvernig greiðslukortanotkun þeirra staðfesti að daglegar athafnir þeirra fari ekki saman, einkum í ljósi þess að þau séu sjálfstæðir einstaklingar í hjónabandi. Enn fremur telji kærandi ekkert athugavert við að lítil samskipti hafi verið á milli þeirra hjóna og fjölskyldna þeirra. Þau búi á Íslandi og eigi bæði fjölskyldur í heimaríkjum sínum. Telji kærandi því að framburður þeirra í viðtölum hjá Útlendingastofnun sé ekki athugaverður enda kunna upplifanir og minningar á atburðum sem gerðust nokkrum árum fyrr að vera ólíkar. Það sé því mat kæranda að atriði sem fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar geti ekki, ein og sér, leitt til þess að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi að afla dvalarleyfis.

Kærandi byggir varakröfu sína á því að alvarlegur annmarki hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar, einkum með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi ríka hagsmuni af vandaðri úrlausn um umsókn hans, einkum með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Því til stuðnings vísar kærandi einkum til þess að ekki hafi verið tekið tillit til hagsmuna maka hans í hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur hafi Útlendingastofnun borið að leggja mat á hvort viðhlítandi upplýsingar og gögn lægju fyrir, þannig að unnt væri að meta rétt kæranda til útgáfu dvalarskírteinis hér á landi. Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína og ekki lagt sérstakt mat á þá hagsmuni sem í húfi séu. Telur kærandi augljóst að hagsmunir stjórnvalda af því að synja kæranda um dvalarleyfi séu hverfandi gagnvart hagsmunum kæranda og maka hans af því að njóta fjölskyldulífs. Auk þess er vísað til málshraðareglu stjórnsýsluréttarins, þ.e. að ákvörðun hafi verið tekin um 18 mánuðum eftir að kærandi lagði fram umsókn sína. Að sögn kæranda hafi Útlendingastofnun ekki nýtt tímann til gagnaöflunar, heldur virðist mat stofnunarinnar einkum byggjast á ófullnægjandi og úreltum gögnum frá lögreglu sem séu ekki marktæk. Á þessum tíma hafi samband kæranda og maka hans styrkst gríðarlega. Hafi hjónin verið mikill stuðningur hvort við annað en kærandi glími m.a. við andleg vandamál. Þá vísar kærandi til þess að ekki hafi farið fram rannsókn á dvalarstað þeirra eða samvistum. Kærandi telur annmarka á málsmeðferð hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins og séu annmarkarnir slíks eðlis að úr þeim verði ekki bætt á æðra stjórnsýslustigi. Að mati kæranda sé því óhjákvæmilegt að fella ákvörðunina úr gildi.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í XI. kafla laga um útlendinga er fjallað um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna gilda ákvæði kaflans um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 80. gr. laganna segir að ákvæði kaflans gildi einnig um aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er þá kveðið á um að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla hafi rétt til að dveljast hér á landi með honum. Með aðstandanda í skilningi ákvæðisins er m.a. átt við maka. Jafnframt er fjallað um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar í 86. gr. laganna. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er síðar varð að núgildandi lögum um útlendinga er ljóst að XI. kafla laganna felur að verulegu leyti í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar nr. 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar fara og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Í málinu liggur fyrir afrit af hjúskaparskírteini, dags. 19. janúar 2022, en samkvæmt efni vottorðsins gengu kærandi og maki hans í hjúskap í Albaníu þann sama dag. Þá kemur fram í gögnum málsins að maki kæranda hafi skráð dvöl sína hér á landi í þjóðskrá 2. febrúar 2022. Kærunefnd telur því ljóst að ákvæði XI. kafla laga um útlendinga kunni að eiga við um kæranda enda sé hann maki pólsks ríkisborgara sem hefur nýtt sér rétt sinn til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. og 2. mgr. 80. gr. laganna.

Í 1. mgr. 90. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur sem dvelst hér á landi skv. 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins og skal Útlendingastofnun gefa út skírteinið að fenginni umsókn, sbr. jafnframt 3. mgr. 90. gr. laganna. Í máli þessu liggur fyrir að Útlendingastofnun synjaði kæranda um útgáfu dvalarskírteinis á þeim grundvelli að kærandi og maki hans hefðu stofnað til hjúskapar til þess að afla kæranda dvalarleyfis, sbr. 2. mgr. 92. gr. laganna.

Í 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandenda hans. Segir m.a. í 1. mgr. ákvæðisins að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum XI. kafla falli niður ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. laganna sé að ræða. Þá kemur m.a. fram í 2. mgr. 92. gr. laganna að heimilt sé að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur sé um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé.

Eins og að framan greinir er í 1. mgr. 92. gr. vísað til 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sem fjallar um veitingu dvalarleyfis vegna hjúskapar. Þar segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Með lögum nr. 56/2023 um breytingu á lögum um útlendinga var heimild til þess að setja ákvæði í reglugerð um framkvæmd málsgreinarinnar, þ.m.t. til hvaða viðmiða skuli líta varðandi rökstuddan grun á stofnun hjúskapar eða sambúðar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, en ráðherra hefur ekki kosið að beita heimild sinni.

Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Þá ber einnig að líta til þess að lagaákvæði er fjalla um málamyndahjúskap verði að taka mið af mannréttindaákvæðum um friðhelgi fjölskyldu, sbr. meðal annars 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda geta ákvarðanir um synjun dvalarréttar skert rétt til fjölskyldulífs. Á hinn bóginn lítur kærunefnd einnig til þess að ef hjúskap er komið á til málamynda stefnir hann almennt ekki að raunverulegu fjölskyldulífi, sem vernd mannréttindaákvæðanna lítur að.

Þá lítur nefndin einnig til þess að mál sem falla undir umrædd ákvæði laga um útlendinga eru nokkuð atviksbundin og geta aðstæður einstaklinga verið mjög misjafnar á milli mála. Mestu skiptir að rannsaka tilurð hjúskapar eða sambúðar enda leggi lagaákvæðin höfuðáherslu á tilgang hjúskapar eða sambúðar, þ.e. hvort til þess hafi verið stofnað til þess að afla dvalarleyfis eða dvalarskírteinis.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis. Ráða má af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin byggi mat sitt einkum á eftirfarandi atriðum. Í fyrsta lagi vegna fyrri dvalarsögu kæranda hér á landi, þ. á m. brottvísun og endurkomubanni, og tilraun til þess að brjóta gegn endurkomubanninu. Í öðru lagi á framburðarskýrslum aðila hjá lögreglu frá 19. júní 2022. Í þriðja lagi vegna þess að ljósmyndir af kæranda og maka, ásamt upplýsingum á samfélagsmiðlum þeirra og framlögð samskiptasaga, hafi ekki sýnt fram á raunverulegt samband þeirra. Í fjórða lagi hafi gögn málsins bent til þess að daglegar athafnir þeirra færu ekki fram á sama svæði. Þar að auki hafi komið fram misræmi í frásögnum þeirra í viðtölum Útlendingastofnunar.

Af gögnum málsins má ráða að maki kæranda hafði ekki dvalið á Íslandi áður en hún gekk í hjúskap með kæranda. Samkvæmt hjúskaparvottorði fór hjónavígsla þeirra fram 19. janúar 2024 og þau komu til landsins fimm dögum síðar, 24. janúar 2022. Þá hafi maki kæranda skráð dvöl sína hjá Þjóðskrá Íslands 2. febrúar 2022, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 89. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi síðar lagt fram umsókn um dvalarskírteini 8. mars 2022. Af atburðarrásinni er ljóst, einkum með vísan til skamms tíma frá hjónavígslu og til flutninga, að ákvörðun hjónanna að búa á Íslandi hafi verið tekin áður en þau gengu í hjúskap. Þá liggur jafnframt fyrir að ekki hafa verið lögð fram haldbær gögn sem sýna fram á sambúð þeirra eða náið samband að öðru leyti í heimaríki kæranda fyrir stofnun hjúskaparins.

Í máli þessu liggja m.a. fyrir skýrslutökur hjá lögreglu, dags. 19. júní 2022. Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að framburðarskýrslurnar hafi ekki vægi í málinu. Vegna maka kæranda er vísað til þess að hún hafi dregið framburð sinn til baka. Þá kemur fram í tölvubréfi, dags. 22. júní 2022, að maki kæranda hafi komið á lögreglustöð og kvaðst hún hafa fengið taugaáfall í fangaklefanum sem hafi orðið til þess að hún hafi logið í skýrslutöku vegna mögulegs málamyndahjúskapar og vilji draga framburð sinn til baka. Vegna framangreinds bendir kærunefnd á að málsmeðferð innan stjórnsýslunnar grundvallist á reglu sem nefnd hefur verið sannleiksreglan en hún kveður á um að ákvörðun sem tekin er skuli vera rétt og í samræmi við málsatvik eins og þau verða best upplýst. Af framangreindri meginreglu ber stjórnvöldum að líta heildstætt á málsatvik og fylgja almennum sönnunarreglum. Ekki gilda sérstakar útilokunarreglur um sönnunargildi tiltekinna málsgagna en þó lítur kærunefnd til þess að öflun gagna með ólögmætum aðferðum, sem t.a.m. brjóti gegn grundvallarréttindum einstaklinga, kunni að hafa takmarkað sönnunargildi. Í því samhengi lítur nefndin einkum til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu og VII. kafla stjórnarskrárinnar.

Í málinu vísar kærandi til þess að lögregla hafi beitt maka hans þrýstingi, auk þess sem hún hafi fengið taugaáfall í fangaklefa. Af framburðarskýrslunni, dags. 19. júní 2022, er ljóst að maki kæranda gat upplýst um einstök atriði um tilurð og ástæður hjúskapar þeirra hjóna. Fram kemur í skýrslunni að maki kæranda hafi verið upplýst um að hún nyti réttarstöðu sakbornings. Enn fremur hafi henni verið tilkynnt um meint brot sem væru til rannsóknar, og réttindi hennar vegna skýrslutöku hjá lögreglu, þ.m.t. um að henni sé ekki skylt að svara spurningum um sakarefnið. Þá hafi verjandi verið tilnefndur að ósk maka kæranda. Hvorki í framburðarskýrslu kæranda né handtökuskýrslu er fjallað um meint taugaáfall hennar. Af skýrslunum má ráða að hvorki maki kæranda, né verjandi hennar, hafi gert athugasemdir við lok skýrslutökunnar, svo sem varðandi ástand kæranda eða meintan þrýsting lögreglu. Þá liggur fyrir að maka kæranda var bent á möguleika sína til þess að koma umkvörtunum vegna handtöku til Héraðssaksóknara eða nefndar um eftirlit með lögreglu en gögn benda ekki til þess að hún hafi nýtt sér þau úrræði. Í ljósi framangreinds hefur kærunefnd ekki forsendur til þess að líta alfarið hjá umræddri framburðarskýrslu á grundvelli einhliða yfirlýsingar hennar um meint taugaáfall og meintan þrýsting lögreglu, sem ekki er studd neinum haldbærum gögnum.

Meðal atriða sem koma fram í framburðarskýrslu maka kæranda er að hún og kærandi hafi fyrst kynnst á flugvellinum í Tirana, með atbeina vinkonu maka kæranda, sem jafnframt er mágkona kæranda. Þau hafi kynnst þar 5. janúar 2022 og gift sig tæpum tveimur vikum síðar. Maki kæranda búi á heimili með umræddri vinkonu sinni og bróður kæranda, en kærandi búi ekki þar. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að samkvæmt lögum séu þau hjón en að baki hjúskapnum búi ekkert meira. Hjónabandið hafi verið skipulagt til þess að kærandi gæti fengið landvistarleyfi á Íslandi en í skiptum hafi maki kæranda fengið greitt um [...] evrur. Þau hafi aldrei átt í ástarsambandi og hafi ætlað sér að skilja eftir að kærandi fengi kennitölu. Maka kæranda hafi ekki dottið í hug að málamyndahjúskapur bryti gegn íslenskum lögum og nefndi að slíkt væri ekki litið alvarlegum augum í heimaríki hennar.

Sama dag, 19. júní 2022, tók lögregla skýrslu af kæranda, en hann hafði verið handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Vegna ástands kæranda telji hann ótækt að líta til skýrslutökunnar. Samkvæmt skýrslunni var kærandi handtekinn um kl. 10 að morgni og játaði hann neyslu [...]þremur dögum áður. Hann var vistaður í fangageymslu vegna málsins og hófst yfirheyrsla hjá lögreglu um átta klukkustundum síðar. Samkvæmtramburðarskýrslu hafi kærandi notið aðstoðar lögmanns, en túlkur hafi einnig verið viðstaddur. Af skýrslunni má jafnframt ráða að hvorki kærandi né verjandi hans gerðu athugasemdir við framkvæmd yfirheyrslunnar né innihald skýrslunnar, einkum varðandi ástand kæranda og fíkniefnaneyslu hans þremur dögum áður. Verður því að hafna röksemd kæranda að ótækt sé að líta til skýrslutökunnar. Fram kemur í framburðarskýrslu kæranda að hann sé albanskur ríkisborgari sem sé nú giftur pólskri konu, og greindi kærandi frá nafni hennar og aldri. Kærandi hafi þó ekki vitað hver fæðingardagur hennar væri og hafi illa getað greint frá heimili hennar. Hann hafi þó vísað til þess að búa með maka sínum, ásamt bróður sínum og mágkonu.

Við meðferð umsóknar um dvalarleyfi boðaði Útlendingastofnun kæranda og maka hans í viðtöl hjá stofnuninni 9. febrúar 2023, en meðal fylgigagna málsins eru endurrit viðtalanna. Af endurritunum er ljóst að nokkuð misræmi er í framburði kæranda og maka hans, miðað við þær upplýsingar sem fram komu í skýrslutöku hjá lögreglu 19. júní 2022. Á það einkum við um framburð maka kæranda. Ekki hafa verið lagðar fram heildstæðar skýringar á þessu misræmi, aðrar en yfirlýsingar maka kæranda um að hún hafi logið í skýrslutöku hjá lögreglu í kjölfar taugaáfalls. Telur kærunefnd misræmi þetta til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar þeirra hjóna.

Af öðrum atriðum sem tilgreind eru í athugasemdum með 8. mgr. 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga er ljóst að þónokkur aldursmunur er á milli kæranda og maka hans. Samkvæmt yfirlýsingum þeirra um fyrstu kynni hafi kærandi verið 35 ára og maki hans nýlega orðin 18 ára gömul. Þegar þau hafi gift sig var kærandi 36 ára og maki hans 19 ára gömul. Að mati kærunefndar getur aldursmunur, einn og sér, ekki verið skýring á málamyndahjúskap en samkvæmt viðmiðum löggjafans er það eitt af atriðum sem líta ber til. Af tungumálum liggur fyrir að kærandi og maki hans tala ekki sama móðurmálið en að meginstefnu hafa samskipti þeirra farið fram á ensku. Má það m.a. leiða af fyrirliggjandi samskiptum kæranda og maka hans á samfélagsmiðlum. Af gögnum málsins má einnig ráða að kærandi og maki hans þekkja að einhverju leyti til atriða eða atvika úr fyrra lífi hvors annars, þ.m.t. hjúskaparsögu. Virðist maka kæranda þannig ljóst að kærandi hafi áður verið í hjúskap og eigi barn í heimaríki. Að mati kærunefndar er ekkert í gögnum málsins sem vekur sérstakar grunsemdir vegna hjúskaparstöðu aðila málsins.

Kærunefnd lítur til þess að kærandi hefur áður sóst eftir dvöl á landinu, fyrst árið 2019 með umsókn um alþjóðlega vernd, eftir að honum var birt ákvörðun um brottvísun og endurkomubann vegna ólögmætrar dvalar hér á landi, líkt og rakið er í málsatvikalýsingu. Þá má jafnframt ráða af málaskrá Útlendingastofnunar að kærandi hafi reynt að koma til landsins á meðan endurkomubanni hans stóð en að för hans hafi verið stöðvuð af lögreglu á Keflavíkurflugvelli 10. nóvember 2022. Má samkvæmt framangreindu ráða að kærandi hafi áður haft ásetning um dvöl á Íslandi. Samkvæmt fullyrðingum kæranda og maka hans í viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun um búsetu þeirra í Albaníu má jafnframt ráða að tilraun kæranda um brot gegn endurkomubanni, sbr. til hliðsjónar a-lið 1. mgr. 116. gr. laga um útlendinga, hafi verið framkvæmd á meðan þau kváðust vera í nánu sambandi þar í landi.

Þá liggur jafnframt fyrir að bróðir kæranda er búsettur hér á landi, en í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun virðist það meðal ákvörðunarástæðna fyrir því að þau vildu flytja til Íslands. Kærandi byggir rétt sinn til dvalar á maka sínum sem er ríkisborgari EES-ríkis. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að hún hafi áður verið í hjúskap eða sambúð, þess þá heldur að aðrir aðilar hafi öðlast sjálfstæðan rétt til dvalar vegna sambúðar eða hjúskapar við hana. Í framburðarskýrslu maka kæranda hjá lögreglu lýsti hún því yfir að hún fengi [...] evrur fyrir að giftast kæranda. Líkt og þegar hefur komið fram dró hún þann framburð til baka og sagðist hafa logið í skýrslutökunni.

Af öðrum fylgigögnum málsins lítur nefndin einnig til ljósmynda af kæranda og maka, sem lagðar hafa verið fram, ásamt skjáskotum af samskiptum þeirra á milli, á samfélagsmiðlinum Instagram, auk smáskilaboða og yfirlit yfir símtöl. Kærunefnd hefur yfirfarið gögn málsins og lítur nefndin sérstaklega til þess að fullyrðingar kæranda og maka hans um sambúð áður en þau gengu í hjúskap og fluttu síðan til Íslands eru ekki studdar neinum gögnum. Þá veitti kærunefnd kæranda færi á að leggja fram betri og skýrari gögn um samskipti þeirra á milli og ferðalög maka kæranda til heimaríkis kæranda. Með tölvubréfi, dags. 14. mars 2024, kvaðst kærandi ekki geta lagt fram þau gögn sem kærunefnd óskaði eftir, en lagði þó fram fimm ljósmyndir. Vafi ríkir um sameiginlega búsetu þeirra hér á landi, að teknu tilliti til upplýsinga sem fram komu í skýrslutöku hjá lögreglu. Kærunefnd hefur farið yfir ljósmyndir og rafræn samskipti á milli kæranda og maka. Hluti gagnanna var lagður fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, en frekari gögn voru lögð fram á kærustigi. Gögnin sýna einkum fram á samskipti og samveru við fá tilefni og virðast þau einkum eiga sér stað eftir að þeim varð ljóst að íslensk stjórnvöld hefðu til rannsóknar hvort að hjúskapur þeirra væri til málamynda. Verður að teljast ósennilegt að kærendur eigi engar ljósmyndir af þeim hjónum við sérstök tilefni, svo sem hátíðahöld, afmæli eða brúðkaupsafmæli. Kærunefnd lítur til skýringa kæranda um myndagleði para þar sem því sé haldið fram að ekkert sé athugavert að einstaklingar og pör séu ekki myndaglöð. Kærunefnd fellst að einhverju leyti á þessa skýringu kæranda, en lítur þó til þess að stjórnvöld hafa til skoðunar mat á gildi hjúskapar samkvæmt lögum um útlendinga. Í því samhengi ber stjórnvöldum að líta til haldbærra gagna við mat sitt. Því telur nefndin ótækt að líta til ljósmynda einna og sér, en þær geta sannarlega verið hluti af heildstæðu mati stjórnvalda.

Hvað skýringar kæranda um samskipti á samfélagsmiðlinum Snapchat varðar telur kærunefnd það ekki til þess fallið að styrkja málatilbúnað kæranda. Hvergi er vikið að miðlinum í öðrum gögnum málsins, svo sem viðtölum, framburðarskýrslum eða dvalarleyfisumsókn. Lítur nefndin einnig til þess að ljósmynd af farsíma kæranda, þar sem m.a. má sjá myndir af einstökum smáskilaboðum og símtalalista, bendi til þess að farsími kæranda sé ekki snjallsími og geti því ekki stutt smáforritið Snapchat. Á kærustigi hafa hins vegar verið lögð fram gögn sem eiga að sýna samskipti á milli kæranda og maka hans á samfélagsmiðlinum Instagram. Sjáanlegar tímasetningar eru einkum í ágúst og september, og á nánar óskilgreindum gærdögum en miðillinn tilgreinir ekki ár nema að liðið sé meira en ár frá þeim samskiptum sem til skoðunar eru. Verður því lagt til grundvallar að um sé að ræða samskipti á haustmánuðum 2023. Það sama á við um samskiptagögn sem lögð voru fram úr síma maka kæranda hjá Útlendingastofnun úr samskiptaforritinu Messenger. Má ætla af þeim dagsetningum sem þar koma fram að þau sýni fram á samskipti á milli kæranda og maka hans á tímabilinu mars til júlí 2022 þar sem að skjáskotin voru lögð inn til Útlendingastofnunar í júlí 2022.

Nefndin lítur einnig til skýringa kæranda varðandi flugbókanir og brottfararspjöld vegna ferða maka kæranda til Albaníu árið 2020. Í málinu liggur fyrir að vegabréf hennar er útgefið árið 2021, og inniheldur það ekki stimpla inn og út af Schengen-svæðinu fyrir þann tíma. Telur kærunefnd það eðlilega kröfu af hálfu Útlendingastofnunar að hafa óskað eftir afritum af flugbókunum eða brottfararspjöldum. Í því samhengi lítur nefndin til þess að kaup á flugmiðum fer almennt fram í netverslun og eru kvittanir og flugbókanir almennt varðveittar í tölvubréfahólfum kaupenda. Enn fremur eru brottfararspjöld varðveitt í tölvubréfahólfum og eftir atvikum í svonefndum veskjum sem stýrikerfi snjallsíma bjóða upp á. Af gögnum málsins má ráða að maki kæranda noti farsíma frá framleiðandanum Apple en slíkir símar styðja við slík veski. Af frásögn maka kæranda má ráða að hún hafi ferðast ásamt þremur vinkonum sínum til Albaníu í júní 2020 og hafi þær dvalið þar saman í um mánuð. Telur kærunefnd ekki óvarlegt að ætla að vinkonur maka kæranda kynnu að eiga einhver gögn í fórum sínum sem stutt gætu við frásögn hennar og kæranda af þessari ferð. Enn fremur kvaðst maki kæranda hafa ferðast tvisvar sinnum til Póllands á þeim tíma sem hún hafi búið með kæranda í Albaníu en hún hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á þær ferðir. Í tölvubréfi, dags. 14. mars 2024, kemur fram að kærandi gæti ekki lagt fram frekari gögn sem gætu sýnt fram á umræddar ferðir og atburðarás í samskiptum kæranda og maka hans.

Að öllu framangreindu virtu telur kærunefnd hafið yfir skynsamlegan vafa að kærandi og maki hans hafi stofnað til hjúskapar með í þeim eina tilgangi að kærandi gæti öðlast rétt til dvalar á Íslandi. Í því samhengi lítur kærunefnd einkum til þess að kærandi og maki hans hafa ekki sýnt fram á, með haldbærum gögnum, að þau hafi átt í nokkurs konar sambúð eða annars konar sambandi áður en þau hófu hjúskap. Ennfremur hefur kærandi ekki lagt fram nema takmörkuð gögn sem sýna eiga fram á samband hans og maka hans eftir að þau giftu sig og fluttu hingað til lands. Þá lítur kærunefnd til fyrri dvalar kæranda hér á landi. Loks telur kærunefnd það hafa vægi í málinu að misræmi er í framburði kæranda og maka hans, bæði í viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun en ekki síst í framburðaskýrslum þeirra hjá lögreglu.

Líkt og fram kemur í 1. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 8. mgr. 70. gr. sömu laga veitir hjúskapur, sem stofnað er til í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, ekki rétt til dvalarskírteinis vegna fjölskyldusameiningar. Að mati nefndarinnar hefur kærandi ekki sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar er ljóst að kærandi nýtur ekki réttar til dvalar eftir ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga. Þá hefur kærandi jafnframt dvalið hér á landi lengur en honum er heimilt eftir ákvæðum sem gilda um dvöl á grundvelli áritunarfrelsis, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess er dvöl kæranda hér á landi orðin ólögmæt og hefði Útlendingastofnun með réttu átt að vísa honum brott frá landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og ákveða honum endurkomubann til landsins. Kæranda er því veittur 15 daga frestur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða honum endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Í greinargerð sinni til kærunefndar gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga. Kærunefnd hefur nú yfirfarið hina kærðu ákvörðun og gögn málsins. Er það mat nefndarinnar að málið hafi verið nægjanlega rannsakað og kærandi fengið ráðrúm til þess að koma á framfæri sínum sjónarmiðum og gögnum vegna málsins. Þrátt fyrir það er ljóst að kærandi lagði fram umsókn sína um dvalarskírteini 8. mars 2022 en Útlendingastofnun tók ákvörðun sína 16. nóvember 2023. Að mati kærunefndar er málshraðinn aðfinnsluverður, m.a. með hliðsjón af 9. gr. stjórnsýslulaga og 3. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Brot gegn málshraðareglu leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að fallist skuli á umsókn kæranda en Útlendingastofnun er leiðbeint að hraða vinnslu sambærilegra mála.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum