Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Stefna um stuðning Íslands við Úkraínu samþykkt á Alþingi

Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu árin 2024 – 2028, var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi í dag með breiðum stuðningi stjórnar og stjórnarandstöðu. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fagnar afgreiðslu Alþingis á tillögunni. „Mér þykir sérstaklega vænt um hina miklu þverpólitísku samstöðu sem hefur ríkt á þingi um þetta afar mikilvæga mál. Öflugur stuðningur við Úkraínu er mikilvægasta utanríkis- og öryggismál sem Ísland og Evrópa standa frammi fyrir. Því kerfi alþjóðalaga, sem öryggi okkar og lífskjör byggjast á, er ógnað með innrás Rússlands í Úkraínu. Við verðum því að leggja varnarbaráttu Úkraínu lið með ákveðnum og áþreifanlegum hætti.“ segir utanríkisráðherra. „Með tillögunni og skuldbindingu í fjármálaáætlun er lagður sterkur grunnur að markvissum stuðningi okkar.“ 

Tillaga að gerð sérstakrar stefnu í málefnum Úkraínu var lögð fram í ríkisstjórn þann 10. október af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og miðar að því að styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í Úkraínu. Hún var síðan lögð fram á Alþingi af Bjarna Benediktssyni, þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra þann 12. mars síðastliðinn.

Í sameiginlegu áliti utanríkismálanefndar var þingsályktunartillögunni fagnað og lagt til að hún yrði samþykkt. Þar var lögð áhersla á „…að á þeim sviðum sem stefnan nær til verði stuðningur Íslands við Úkraínu hlutfallslega sambærilegur að umfangi við það sem önnur ríki Norðurlanda leggja af mörkum. Nefndin undirstrikar að með öflugum stuðningi við sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétt og öryggi Úkraínu ásamt friðarviðleitni á forsendum úkraínsku þjóðarinnar sé jafnframt staðin varðstaða um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggist á.“ 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum